Kanna hug foreldra til Hjallastefnuleikskóla

Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Foreldrar leikskólabarna í Árborg og foreldra barna sem eru á bið eftir leikskólaplássi hafa fengið senda könnun þar sem sveitarfélagið leitar eftir áliti foreldra á því að Hjallastefnuleikskóli verði rekinn í sveitarfélaginu.

Í tilkynningu frá Árborg segir að þar sem íbúar í sveitarfélaginu nálgist nú um 11.700 sé mikilvægt að kanna hug foreldra og verðandi foreldra leikskólabarna til aukinnar fjölbreytni í leikskólaúrræðum í sveitarfélaginu.

Í dag rekur Sveitarfélagið Árborg sex leikskóla á átta starfsstöðvum, fimm leikskóla með sex starfsstöðvar á Selfossi og einn leikskóla við ströndina, sem er með starfsstöðvar á Eyrarbakka og Stokkseyri. Leikskólinn Jötunheimar tók í notkun húsnæði við Stekkjaskóla í haust og með því fjölgaði leikskólaplássum í sveitarfélaginu um þrjátíu.

Öllum börnum sem eru fædd í maí 2022 eða fyrr, sem áttu virka umsókn í vor þegar að úthlutun fór fram, var boðið leikskólapláss.

Fyrri greinByggðaþróunarfulltrúar á vinnufundi í Skálholti
Næsta greinKjörstaður í Vík fyrir pólsku þingkosningarnar