Kanna áhrif virkjunar á nærsamfélagið

Skaftártunga. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Veiðifélag Skaftártungumanna hefur skipað starfshóp til að rýna áform um Búlandsvirkjun og áhrif hennar á nærsamfélagið.

Markmið hópsins er að skila greinargerð til félagsins þannig að hver og einn félagsmaður geti tekið upplýsta ákvörðun um virkjunaráformin.

Verkefnið var kynnt á síðasta fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps þar sem því var beint til sveitarstjórnar að áherslur starfshópsins fái stuðning og brautargengi. Einnig var því beint til sveitarstjórnar að hún taki þátt í því að leita lausna til bættra búsetuskilyrða í Skaftártungu í tengslum við áform um Búlandsvirkjun.

Sveitarstjórn þakkaði veiðifélaginu fyrir erindið og fagnaði málefnalegri vinnu starfshópsins við rýningu á kostum og göllum við fyrirhugaða virkjun.

„Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er skýr stefna sveitarfélagsins að auka þurfi atvinnusköpun með öllum þeim tækifærum sem völ er á og svæðið býður upp á í sem mestri og bestri sátt samfélagsins. Sveitarstjórn er fús til alls málefnalegs samstarfs sem leitt getur til bættra búsetuskilyrða í sveitarfélaginu,“ segir í bókun sem samþykkt var á fundinum.

Fyrri greinSkiluðu ríkissjóði 52 milljónum
Næsta greinEinar kosinn formaður ungra bænda