Kalt vor seinkar fyllingu lóna Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur endurmetið horfur í vatnsbúskap fyrirtækisins. Staðan í miðlunum í lok vetrar var góð og mikill snjór á Þjórsársvæðinu.

Óvenjulega kalt og þurrt vor hefur einkennt þróun í vatnsbúskapnum að undanförnu. Kuldinn í vor olli því að vorleysing af hálendinu hófst seint og var hæg framan af. Þetta er ein versta vorkoma í rekstrarsögu miðlana Landsvirkjunar.

Framundan er tími leysinga af jöklum og fer eftir magni jökulbráðnunar hversu vel gengur að fylla miðlunarlónin síðar í sumar. Ákoma á jökla var umfram meðallag síðasta vetur og enn er mikill snjór á hálendinu sem gæti haft áhrif til hins betra.

Vegna þessara seinkaðra vorleysinga er ólíklegt að öll lón Landsvirkjunar fyllist í sumar. Líkur á að lón Þjórsársvæðis fyllist eru litlar.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að mögulega þurfi fyrirtækið að draga úr framboði á raforku á skammtímamarkaði ef staða í lónum verður undir væntingum í haust. Þó svo að öll lón fyllist ekki þá geti miðlunarstaða eftir sem áður verið ásættanleg.

Hvenær lónin fyllast og fara á yfirfall mun meðal annars ráðast af veðurfari og jökulbráðnun næstu vikna og mánaða og ekki hægt að fullyrða neitt um tímasetningar sem stendur.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar.

Fyrri greinÚtiljósmyndasýningin komin upp
Næsta greinAndrés Ingi tók sæti á þingi