
Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur samþykkt að hefja vinnu við deiliskipulag nýs íþrótta- og útivistarsvæðis á Hellu, norðan nýja gervigrasvallarins.
Óskað hefur verið eftir hugmyndum frá íbúum um notkunarmöguleika svæðisins til framtíðar sem myndu nýtast í skipulagsvinnunni.
„Við ákváðum að fara þessa til að að viðhalda opnu og virku íbúalýðræði. Það eina sem er öruggt að það verður byggður nýr frjàlsíþróttavöllur þarna, sem stefnt er að verði klàr sumarið 2027. Það liggur inni í umsókn frá Umf. Heklu um að halda Landsmót 50+ árið 2027. Það er algjört nýmæli að byrja á þessum enda í skipulagsmálum sveitarfélaga, ekki síst þar sem þetta er á miðsvæði og í hjarta byggðarlagsins,“ sagði Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar, í samtali við sunnlenska.is.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá svæðið en um frumhugmynd er að ræða en ekki samþykkt skipulag. Umrætt svæði er ljósgrænt á myndinni, ofan við gervigrasvöllinn, innan bláu brotalínunnar.
Þess má geta að vinna við gervigrasvöllinn er í fullum gangi, byrjað verður að leggja grasið eftir helgi og jafnframt verður komið fyrir lýsingu en stefnt er að því að völlurinn verði tilbúinn í seinnihluta september.
