Kalla eftir mótvægisaðgerðum

Að sögn Ólafs Arnars Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, hefur umferð um þjóðgarðinn aukist gríðarlega síðan nýi vegurinn um Lyngdalsheiði var opnaður.

Sagði Ólafur að kallað hefði verið eftir mótvægisaðgerðum og hefur hann þegar átt fund með Svani Bjarnasyni umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Selfossi.

Um er að ræða 7 km kafla um þjóðgarðinn og hefur það valdið áhyggjum hve hröð umferðin er um þennan hlykkjótta kafla. Sumarhúsaeigendur í grenndinni hafa þar að auki orðið varir við mun meiri hávaða frá umferðinni.

,,Við höfum óskað eftir því að allt verði gert til þess að hægja á umferðinni og að koma í veg fyrir að þungaflutningar verði um veginn,” sagði Ólafur Örn. Leyfilegt er að aka á 50 km hraða í gegnum þjóðgarðinn og hefur verið rætt um að setja upp skilti og ljósbúnað til að vekja athygli á því.

Ólafur óttast einnig áhrif mengunar frá veginum á vistkerfið við Þingvöll og einnig á hreinleika vatnsins. Mest sagðist hann þó óttast olíuflutninga.