Kallað eftir gögnum frá verktökum

Vegagerðin hefur ákveðið að kalla eftir frekari gögnum frá þremur verktökum, sem áttu 4. til 6. lægsta tilboð í breikkun Suðurlandsvegar frá Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni.

Fyrirtækið Arnarverk átti lægsta tilboðið í verkið, sem boðið var út í vor, en fyrirtækið stóðst ekki settar kröfur. Ákvað Vegagerðin þá að ganga til samninga við Vélaleigu AÞ, sem átti næstlægsta tilboðið en kærunefnd útboðsmála hefur nú ógilt þá ákvörðun á þeirri forsendu að Vélaleiga AÞ uppfylli ekki heldur kröfur. Þá kemur fram í úrskurði kærunefndarinnar, að tilboð Háfells, sem var það þriðja lægsta, hafi ekki verið gilt.

Vegagerðin segir á heimasíðu sinni, að vonast sé til að fljótlega verði hægt að semja við verktaka sem standist kröfur útboðsins um verkið. Ekki sé um að ræða, að bjóða þurfi verkið út að nýju enda sé ekki gerð athugasemd við útboðið heldur mat á því hvernig reikna skuli ársveltu síðustu þriggja ára hjá fyrirtækjunum, sem buðu í verkið.

Alls buðu 15 fyrirtæki í verkið og voru 12 tilboð undir áætluðum verktakakostnaði, sem nam 750 milljónum króna. Tilboð Arnarverks var upp á 606 milljónir og Vélaleiga AÞ bauð 619 milljónir. Háfell bauð rúmar 629 milljónir. Ingileifur Jónsson ehf. bauð 641,9 milljónir, Árni Helgason ehf. og Glaumur ehf. buðu 673,2 milljónir og KNH ehf. á Ísafirði bauð 676,9 milljónir.

Fyrri greinÞjófar á ferð í Henglinum
Næsta greinFór í gönguferð á milli hreppa