Kaldur og hrakinn göngumaður sóttur

Björgunarsveitir fylgja nú göngumanni með ofkælingu í Landmannalaugar. Maðurinn var mjög hrakinn og kaldur þar sem hann var einn á ferð á Laugaveginum.

Fyrstu fregnir af vettvangi voru ekki nákvæmar en björgunarsveitir voru kallaðar út eftir að beiðni um aðstoð barst Neyðarlínu frá pari sem er á göngu um þrjá kílómetra suður af Landmannalaugum.

Nú er komið á daginna að konan og maðurinn voru bæði ein á ferð og kom konan að manninum, köldum og hröktum og hringdi hún þá í Neyðarlínuna. Maðurinn er með einkenni ofkælingar.

Björgunarsveitakonur, sem starfa sem landverðir í Landmannalaugum, voru kallaðar til og komu fyrstar á staðinn. Þær hlúðu að manninum og settu í þurr föt.

Þær fylgja honum nú til móts við björgunarfólk sem mun aðstoða við að koma honum að skálanum þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar lenti um klukkan 13:30.

Þegar þangað er komið verður ástand mannsins metið og tekin ákvörðun um framhald aðgerðarinnar.

UPPFÆRT KL. 13:54

Fyrri greinÖlfusingar vilja taka á móti flóttamönnum
Næsta greinBandmenn í Árnesi