Kaffi krús bauð best

Fannar og Tommi á Kaffi krús á Selfossi tóku í dag á móti árituðu dagatali frá sjúkraflutningamönnum HSu en Kaffi krús bauð best í uppboði á árituðu dagatali sjúkraflutningamannanna.

Tvær fjölskyldur langveikra barna fengu afhenta peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum á aðfangadag sem var ágóðinn af dagatalssölunni í desember. Eitt áritað dagatal var boðið upp og lauk uppboðinu á gamlársdag.

Kaffi krús átti hæsta boðið og Þórður Njálsson, sem átti næsthæsta boðið, lét sitt boð standa þannig að ágæt upphæð safnaðist á uppboðinu. Hún skiptist á milli fjölskyldna Heklu Bjargar Jónsdóttur í Þorlákshöfn og Alex Ernis Stefánssonar á Selfossi.

„Þetta er í annað árið í röð sem við bjóðum upp dagatal og það verður örugglega árlegur viðburður eftir þetta. Undirtektirnar í ár voru betri en í fyrra og við vonum bara að stemmningin magnist enn frekar í kringum uppboðið um næstu áramót og fleiri fyrirtæki taki þátt,“ sagði Stefán Pétursson, formaður félags sjúkraflutningamanna í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinBrunavarnir Árnessýslu kaupa stærstan hluta björgunarmiðstöðvarinnar
Næsta greinHamar gaf eftir undir lokin