Kafarar kanna vísbendingu í Þingvallavatni

Frá leitinni á Þingvallavatni. Ljósmynd: Björgunarfélag Árborgar - Ágúst Ingi Kjartansson

Kafarar sérsveitar ríkislögreglustjóra og landhelgisgæslu eru nú að kafa í Þingvallavatni til að kanna með vísbendingu sem fékkst í sónarmynd frá Gavia kafbát á vatninu.

Á sónarmyndinni sést myndform sem mögulega gætu verið útlínur mannslíkama og þykir nauðsynlegt að skoða frekar. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að vegna þessa megi búast við auknum aðgerðum á vatninu um tíma.

Aðstandendur hafa verið upplýstir um stöðu mála og að atvik sem þessi muni koma upp á næstu dögum ef sónarmyndir gefa tilefni til þess að eitthvað sé skoðað nánar.

Leitarflokkar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hófu leit við Þingvallavatn í morgun. Þá hafði verið leitað úr lofti með drónum, með leitarhundum, með gönguhópum og af bátum á vatninu frá því í birtingu. Um 50-70 manns koma að leitinni í dag en auk þess er notaður sónarkafbátur og þyrla Landhelgisgæslunnar hefur tekið þátt í leitinni.

Lögreglan á Suðurlandi segir að eftir að verkefni dagsins verði kláruð munu björgunarsveitarmenn halda í hús og undirbúa fyrirsjáanleg verkefni næsta sólarhrings en veðurspá fyrir landið í heild er afleit, mjög hvasst og töluverð úrkoma þannig að búast er við foktjóni, rafmagnstruflunum og ófærð.

Fyrri greinLokað vegna veðurs: Skólum aflýst og skrifstofum lokað
Næsta greinHættustigi Almannavarna lýst yfir