Kærleikurinn ráðandi á Kótelettunni

Gestir Kótelettunnar voru í sólskinsskapi í gær - og verða það áfram í dag. Ljósmynd/Mummi Lú

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan nær hámarki í dag, laugardag, í bongóblíðu á Selfossi. Veðurspáin gerir ráð fyrir 16 stiga hita og Sigtúnsgarðurinn er tilbúinn fyrir sumarveisluna sem fram undan er.

Á dagskránni eru tívolí, markaður, kynningar, BBQ Festival og Stóra grillsýningin. Þá verður einnig dagskrá á Sigtúnssviðinu þar sem VÆB, Lára og Ljónsi, Klara Einars, Hubba Bubba, Íþróttaálfurinn, Ívar og Hákon, BMX Bros, Gústi B og fleiri koma fram. Dagskráin hefst klukkan 13:00 og stendur til 16:00.

Kótelettufjölskyldan full af þakklæti
Tónleikarnir í gærkvöldi tókust afar vel og var spilað langt fram undir morgun. Í kvöld heldur tónlistarveislan áfram við Hvítahúsið þar sem meðal annars koma fram Friðrik Dór, Daníel Ágúst, Patr!k, Páll Óskar, Stuðlabandið og sjálfur Björgvin Halldórsson.

Skipuleggjendur vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til allra gesta hátíðarinnar í gærkvöldi, sem skemmtu sér konunglega í blíðskaparveðri. Að sama skapi eru viðbragðsaðilum og öllu starfsfólki færðar sérstakar þakkir fyrir frábært kvöld.

„Þetta er fimmtán ára afmæli og vélin sem þessi hátíð er gengur alltaf betur og betur með hverju árinu,“ segir Einar Björnsson, stofnandi og skipuleggjandi hátíðarinnar. „Þetta gerist ekki af sjálfu sér og við fjölskyldan erum öllum afar þakklát. Í dag og í kvöld er fram undan glæsileg dagskrá sem ég vona að sem flestir nái að taka þátt í með okkur.“

Myndirnar hér fyrir neðan tók Mummi Lú á tónleikunum í gærkvöldi og nótt.

Fyrri greinHekla fær vilyrði fyrir lóð á Selfossi
Næsta greinSelfoss vann toppslaginn