Kærður fyrir ölvunarakstur og ofsaakstur á sama sólarhringnum

Í liðinni viku voru 95 kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Af þeim voru 24 stöðvaðir í sérstöku Öræfaeftirliti og 21 í sértöku Uppsveitaeftirliti í Árnessýslu.

Fjórtán voru kærðir af lögreglu í Vík, sex af lögreglu á Kirkjubæjarklaustri, ellefu af lögreglu á Hvolsvelli og þrettán af lögreglu á Selfossi. Þrír voru kærðir á Höfn og þrír voru kærðir af lögreglumönnum sem sinna sérstöku efitliti með ásþunga, merkingu og frágangi farms, brotum á reglum um aksturs- og hvíldartíma og rekstrarleyfum.

Tveir ökumenn voru kærðir vegna gruns um ölvun við akstur og var annar þeirra sviptur ökurétti til bráðabirgða en hann hafði, fyrr á sama sólarhring verið kærður fyrir að aka bifreið sinni með 153 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Þá var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinSæunn sýnir í Gallerí Ormi
Næsta greinAuður ráðin deildarforseti hjá LBhÍ