Kæribær er heilsuleikskóli

Í gær náði leikskólinn Kæribær á Kirkjubæjarklaustri því markmiði að komast í hóp Heilsuleikskóla.

Efnt var til fagnaðar þar sem öllum sveitungum og velunnurum leikskólans var boðið að koma og vera viðstaddir þegar fáni Heilsuleikskólans var dreginn að húni við hátíðlega athöfn.

Heilsuleikskóli er leikskóli sem starfar eftir viðmiðum Heilsustefnunar. Unnur Stefánsdóttir, frá Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi, var leikskólastjóri í Skólatröð í Kópavogi árið 1995 og hafði þá frumkvæði að mótun stefnunnar. Markmið hennar er að auka gleði og vellíðan barna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun.

Kæribær er sautjándi heilsuleikskólinn á landinu en í heilsustefnunni er unnið markvisst með hreyfingu og listsköpun á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir með sérhæfðum kennurum 1-2 sinnum í viku. Þessar stundir eru skipulagðar fyrirfram og tengjast bæði þeim þáttum sem prófaðir eru í Heilsubók barnsins og áherslum leikskóla.

Í næringu er lögð áhersla á hollt heimilisfæði þar sem markmiðið er að auka grænmetis og ávaxtaneyslu og að nota fitu, salt og sykur í hófi. Við samsetningu matseðla er tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna.