Jötunn Vélar með 51,4% markaðshlutdeild

Jötunn Vélar á Selfossi var með tvær söluhæstu dráttarvélarnar árið 2014, rétt eins og árið 2013 og bætir heldur við markaðshlutdeild sína.

Er Jötunn Vélar nú með 51,4% markaðshlutdeild af sölu allra nýrra dráttarvéla á Íslandi en var með 46% hlutfall árið áður.

Greint er frá þessu í Bændablaðinu og segir Finnbogi Magnússon, fram­kvæmda­­stjóri Jötunn Véla, að þó þeim hafi gengið vel í sölunni á síðasta ári, þá sé sú staða ekkert sjálfgefin.

Samkvæmt tölum Samgöngustofu voru seldar 105 nýjar hefðbundnar dráttarvélar á árinu 2014 sem er nærri um 1% samdráttur frá árinu 2013 þegar seldar voru 108 vélar. Massey Ferguson var með 30 seldar vélar og Valtra með 24. Samanlagt þýðir þetta 51,4% markaðshlutdeild hjá umboðsaðilanum Jötunn Vélum.

Sala upp á 105 dráttarvélar er ekki sérlega mikið að mati þeirra sem þekkja vel til á markaðnum. Eðlileg endurnýjunarþörf er talin vera um 150 til 170 dráttarvélar á ári og nú hefur salan verið langt undir þeim tölum í fjölda ára. Meðalaldur dráttarvélaflota landsmanna hækkar því stöðugt.

Fyrri greinSelfoss tapaði gegn toppliðinu
Næsta greinHafnfirðingar loka Hellisheiði og Þrengslum