Jörð skelfur í Flóanum

Jörð hefur skolfið í Flóanum frá því síðdegis í dag en stærsti skjálftinn varð kl. 20:40 í kvöld og fannst hann vel á Selfossi. Hann var af stærðinni 2,9 samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Upptök skjálftanna eru tæpa 7 kílómetra fyrir austan Selfoss, í Sortanum norðan við Bollastaði í Flóahreppi. Hrinan hófst kl. rúmlega fjögur í dag og hafa yfir tuttugu skjálftar mælst síðan þá.

Svanhvít Hermannsdóttir á Lambastöðum býr nálægt upptökum skjálftans og hún sagði í samtali við sunnlenska.is að þar á bæ hafi fólk orðið vart við gríðarlegan dynk og í kjölfarið hafi fylgt drunur.

Skjálftinn fannst einnig vel á Selfossi þar sem margir fundu dynkinn og víða glamraði í glösum og gluggum og jafnvel snókerborð hristust.

Fyrri greinDagný skoraði tvö í mögnuðum sigri Íslands
Næsta greinSlæm byrjun varð FSu að falli