Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka á laugardag

Í fimmtánda sinn boða Eyrbekkingar sjálfa sig, nágranna og aðra gestkomandi á Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka á morgun, laugardaginn 22. Júní, frá morgni til kvölds. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir unga sem aldna.

Að morgni verður boðið upp á dagskrá fyrir unga fólkið við Sjóminjasafnið þar sem Brúðubíllinn kemur í heimsókn og farið verður í leiki.

Eftir hádegi verður heimboð á Bakkanum. Hjónin Þórey og Guðmundur á Sandi, Túngötu 68, bjóða gestum og gangandi í rabb og huggulegheit. Kannski verður rætt um veðurfar og uppskeruhorfur eða eitthvað allt annað – kemur í ljós!

Þau Stefán og Arnfríður í Nýjabæ, Eyrargötu 8B, taka á móti gestum í nýuppgerðu íbúðarhúsi sínu, sem byggt var um aldamótin 1900 – og hefur bæði hýst prentsmiðju og pöntunarfélag og nú ýmislegt handverk.

Að Háeyrarvöllum 14 hjá Hafdísi og Jóhannesi verður gamla skátaheimið opið með myndum og munum frá skátastarfinu á Bakkanum á síðari hluta síðustu aldar.

Eygerður Þórisdóttir sýnir bútasaumsverk sín í Simbakoti – Túngötu 28 og sídegis býður Erlingur Bjarnason upp á pall- eða bílskúrstónleika á sama stað.

Í Húsinu á Eyrarbakka eru tvær nýjar sumarsýningar, önnur tileinkuð Árna Magnússyni handritasafnara og í borðstofu er sýningin Ljósan á Bakkanum – um ævi og störf Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka 1883–1926. Skautbúningur sem Þórdís Símonardóttir saumaði upp úr 1880 verður afhentur safninu til eignar í borðstofu Hússins.

Í samkomuhúsinu Stað verður menningarmarkaður með margs konar handverki og hvers kyns alþýðu-afurðum. Og standandi vöfflukaffi allan daginn.

Síðdegis verður farið í kýló á Garðstúninu.

Eitthvert vinsælasta atriði Jónsmessuhátíðarinnar undanfarin ár, söngstund í stássstofu Hússins, verður á sínum stað í byrjun kvölds. Heimir Guðmundsson leikur á elsta píanó á Suðurlandi undir almennan söng þar sem hver syngur með sínu nefi.

Brennan í fjörunni vestan við Eyrarbakka hefur ætíð dregið til sín margmenni og ekki er von á neinu öðru að þessu sinni. Þar mun Eyrún Óskarsdóttir listfræðingur flytja stutt ávarp og síðan sér Bakkabandið um fjörið meðan menn endast.

Opið verður í Vesturbúð, Laugabúð og í Gallerí Regínu. Tjaldsvæðið vestan við Eyrarbakka er opið – þar er nóg pláss og öll þægindi.

Nákvæma dagskrá má finna á www.eyrarbakki.is og www.arborg.is.

Fyrri greinSóttu strandaglóp á eyju í Þjórsá
Næsta greinHamar skellti toppliðinu