Jonathan Glenn tekur við kvennaliði Selfoss

Jonathan Glenn. Ljósmynd/Selfoss fótbolti

Knattspyrnudeild Selfoss hefur ráðið Jonathan Glenn þjálfara meistaraflokks kvenna og skrifaði hann undir tveggja ára samning við félagið í dag.

Glenn hefur verið á Íslandi frá því sumarið 2014 þegar hann lék með ÍBV en þaðan fór hann til Breiðabliks og Fylkis og síðan aftur til ÍBV. Sumarið 2021 tók hann við þjálfun kvennaliðs ÍBV og ári síðar tók hann við kvennaliði Keflavíkur sem hann þjálfaði til ársins 2024.

„Ég er mjög ánægður að ganga til liðs við Selfoss. Hér er frábær aðstaða og liðið var í fremsta flokki í kvennaboltanum lengi vel. Ég hlakka til að byrja að vinna með leikmönnunum og hjálpa liðinu að halda áfram að þróast og taka næstu skref,” segir Glenn í tilkynningu frá Selfyssingum. Við hana er hnýtt að félagið bindi miklar vonir við ráðningu hans.

Fyrri greinGestirnir unnu öruggan sigur
Næsta greinHaukar 2 unnu öruggan sigur á Selfoss 2