Jónas Sig fékk menningarviðurkenningu RÚV

Jónas ávarpar samkomuna í dag. Mynd/RÚV

Tónlistarmaðurinn Jónas Sig fékk í dag Krókinn, menningarviðurkenningu Ríkisútvarpsins, fyrir framúrskarandi lifandi tónlistarflutning.

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2018 voru veittar við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í dag. 

Elísabet Jökulsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Jónas Sig hlaut Krókinn fyrir framúrskarandi lifandi flutning. 

„Ég er virkilega þakklátur fyrir þetta og sé það sem mína í gæfu í þessu lífi að fá að eiga samtal við þjóðina í gegnum tónlistina. Þetta er hvatning fyrir okkur og við munum halda áfram,“ sagði Jónas meðal annars þegar hann tók við viðurkenningunni ásamt hljómsveit sinni.

Klausturfokk nýyrði ársins
Einnig voru orð og nýyrði ársins 2018 tilkynnt en kosið var um þessi orð á vef Ríkisútvarpsins. Þátttakendur völdu þar kulnun orð ársins og orðið klausturfokk nýyrði ársins 2018. Þá útnefndi Stofnun Árna Magnússonar sögnina plokka orð ársins 2018.

Við sama tilefni voru einnig veittir 72 styrkir úr sameinuðum Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs, en sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Meðal þeirra sem hlutu styrk voru Elín Gunnlaugsdóttir, Jónas Sigurðsson og Leifur Gunnarsson.

Fyrri greinUmtalsverð fækkun fæðinga á HSU
Næsta greinRótarskotin seldust nánast upp