Jónas fékk menningarverðlaunin og Kjarr umhverfisverðlaunin

Um síðustu helgi fór fram bæjarhátíðin Hafnardagar í Ölfusi og þar voru veitt lista- og menningarverðlaun sveitarfélagsins, sem og umhverfisverðlaun.

Eitt af fyrstu verkefnum Elliða Vignissonar, nýs bæjarstóra Ölfuss, var að veita bæði verðlaunin en þau voru afhent föstudaginn 10. ágúst á öðrum vinnudegi Elliða.

Lista- og menningarverðlaun Ölfuss 2018 hlaut tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson fyrir framlag sitt á sviði lista og menningar til sveitarfélagsins. Hann hefur margoft haldið tónleika eða verið hluti af menningarviðburðum í Þorlákshöfn og alltaf verið tilbúinn að leggja hjálparhönd hafi hann tök á því. Eins og mörgum er kunnugt samdi hann lagið „Hamingjan er hér“ og hann gaf sveitarfélaginu leyfi að nota slagorðið í kynningarherferð sinni, nota lagið sjálft í henni og ljá auglýsingunum rödd sína.

Umhverfisverðlaun Ölfuss 2018 hlaut Gróðrarstöðin í Kjarri fyrir einstaklega fallegt og snyrtilegt umhverfi. Gróðrarstöðin er í eigu hjónanna Helgu Rögnu Pálsdóttur og Helga Eggertssonar og frá árinu 1981 hafa þau byggt upp garðplöntuframleiðslu í Kjarri. Ragna, dóttir Helgu og Helga tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd.

Verðlaunagripina gerði Dagný Magnúsdóttir glerlistakona og eigandi kaffihússins/glerlistasmiðjunnar Hendur í Höfn í Þorlákshöfn.

Fyrri greinBræðralög í Hlöðunni
Næsta greinMiklar skemmdir í eldi á Reykjaflöt