Jón og Margeir buðu lægst í Hraunshverfið

Jón Gunnar Margeirsson, framkvæmdastjóri Jóns og Margeirs ehf, og Sigmar B. Árnason, skipulags- og byggingarfulltrúi Ölfuss, handsala samninginn. Ljósmynd/Ölfus

Í síðustu viku skrifuðu Sveitarfélagið Ölfus og Jón og Margeir ehf undir verksamning um gatnagerð á fyrsta áfanga Norðurhrauns, nýs íbúðahverfis í Þorlákshöfn.

Hverfið er norðan af Norðurbyggð og Básahrauni og tengist inn að Sambyggð. Í fyrsta áfanga verða til umsóknar raðhúsalóðir en á seinni stigum verður einnig hægt að byggja einbýli í hverfinu.

Tilboð Jóns og Margeirs hljóðaði upp á tæpar 135 milljónir króna og var 89,4% af kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á tæplega 151 milljón króna.

Þrír aðrir verktakar buðu í verkið. GG Sigurðsson ehf bauð tæpar 142,8 milljónir króna, Aðalleið ehf rúmlega 145,3 milljónir króna og Háfell ehf tæplega 164 milljónir króna.

Framkvæmdum á að vera lokið þann 15. desember næstkomandi en lausar lóðir í hverfinu verða auglýstar fljótlega.

Fyrri greinBikarmeistararnir upp í 3. sætið
Næsta greinÁ 168 km/klst hraða við Hvolsvöll