Jón M. skrifar um fjársvikara í Flóanum

Jón M. Ívarsson, sagnfræðingur frá Vorsabæjarhóli, vinnur nú að bók þar sem umfjöllunarefnið er hin svokölluðu Gaulverjabæjarmál. Þar er fjallað um fjársvikara sem fóru um Flóann fyrir 100 árum síðan.

“Í stuttu máli fjalla Gaulverjabæjarmálin um tvo menn, Jón Magnússon kaupmann, sem gerðist bóndi í Gaulverjabæ 1909-1914 og Björn Gíslason (föðurbróður Gylfa Þ. Gíslasonar ráðherra) sem var þar viðloðandi seinni hlutann af búskapartíð Jóns, tók svo við búsforráðum og var að lokum borinn þaðan út með hreppstjóravaldi vorið 1915. Lagsbróðir þessara manna var Erasmus Gíslason sem þá hélt til á Vestri-Loftsstöðum, bróðir Ragnhildar húsfreyju þar. Þessir menn stunduðu þá fjáröflunaraðferð að heimsækja helstu efnabændur héraðsins, gefa þeim í staupinu og biðja þá svo að skrifa nafnið sitt á pappíra, víxla og skuldabréf,” segir Jón í pistli sem hann skrifar í Áveituna.

“Margir hrekklausir bændur létu ginnast af fagurgala þessara manna og hlutu fjárhagslegan skell fyrir bragðið. Dæmi eru um menn sem misstu jarðir sínar og eignir og urðu gjaldþrota. Þó langt sé um liðið lifa enn í munnmælum ýmsar sagnir um þessa menn og þeirra tiltektir. Ýmislegt er til í dómabókum sýslunnar en málaferli segja ekki alla söguna,” segir Jón ennfremur.

Um þessi mál var skrifuð skáldsaga á sínum tíma sem nefnist Í skugga Glæsibæjar og segir Jón að ef vel gangi gætu þær upplýsingar sem hann er að leita eftir orðið uppistaða í bók um þessi mál. “Á sínum tíma vöktu Gaulverjabæjarmálin athygli allra landsmanna en hafa af ýmsum ástæðum aldrei verið krufin til mergjar. Nú, þegar heil öld er liðin, gæti verið tímabært að segja þessa sögu sem teygði anga sína um allt Suðurland en ekki hvað síst um Flóann.”

Jón leitar nú til Flóamanna, einkum þeirra af eldri kynslóðinni og vill heyra í fólki sem kann að hafa heyrt um þessi mál. Hversu smávægilegt sem það virðist, væri mikils virði að fá að heyra af. Hægt er að ná í Jón í síma 861-6678 eða senda póst á jonm@umfi.is.

Fyrri greinGengið á Gíslholtsfjall í kvöld
Næsta greinHæstiréttur mildaði dóm héraðsdóms