„Jón hefur haft ómetanleg áhrif á hundruð barna“

Jón með viðurkenninguna ásamt Guðmundi Inga, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Jón Stefánsson, kennari í Hvolsskóla á Hvolsvelli, hlaut í gær náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, á degi íslenskrar náttúru.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti viðurkenninguna en í umsögn ráðherra kemur meðal annars fram að Jón hafi skarað fram úr sem kennari „með sínum óþrjótandi áhuga á að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar.“

Nemendur í Hvolsskóla hafa verið virkir þátttakendur í fjölda náttúrutengdra verkefna og fundið á eigin skinni hvernig náttúran breytist og bregst við athöfnum mannanna. Má þar nefna vistheimtarverkefni sem Hvolsskóli hefur tekið þátt í frá 2013 þar sem nemendurnir beita viðurkenndum rannsóknaraðferðum við að kanna áhrif og árangur ólíkra aðferða við landgræðslu; gróðursetningu trjáplantna við rætur Heklu og; mælingar sjöundubekkinga á hopi Sólheimajökuls sem staðið hafa yfir frá 2010 og vakið hafa hemsathygli.

„Með elju sinni, ástríðu og hugmyndaauðgi hefur Jón haft ómetanleg áhrif á hundruð barna sem hafa verið svo lánsöm að hafa haft hann sem kennara,“ segir í rökstuðningnum.

Fyrri grein„Engan veginn nógu gott“
Næsta greinLandssöfnun á birkifræjum hafin