Jón hættir ekki við framboðið

Jón Lárusson, forsetaframbjóðandi á Selfossi, mun ekki draga framboð sitt til baka þrátt fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, gefi kost á sér áfram.

“Frá því að byrjað var að safna áskorunum til handa Ólafi um áframhaldandi setu, hef ég verið spurður hvort ég ætli að halda framboði mínu til streitu ef Ólafur gæfi kost á sér. Ég hef fyrir nokkru ákveðið að óháð ákvörðun Ólafs, þá mun ég ekki víkja frá ákvörðun minni um framboð,” segir Jón í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í kvöld.

“Ég tel að ég hafi þá kosti, dug og þor sem þarf til að gegna embætti forseta Íslands, auk þess sem ég tel mig hafa lausnir til handa íslensku samfélagi, lausnir sem almenningur á rétt á að fá upplýsingar um.”

Í tilkynningunni segir Jón að heyrst hafi í fjölmiðlum að hann eigi ekki möguleika í kosningunum þar sem hann er óþekktur einstaklingur.

“Ég tek slíku ekki persónulega, en það verður að viðurkennast að slíkt viðhorf er ekki sæmandi fjölmiðlafólki og ekki bara móðgun við viðkomandi einstakling, heldur alla þá óþekktu einstaklinga sem hafa allt til þess að bera að gegna embætti forseta Íslands,” segir Jón.

“Það er ekki í anda lýðræðis að hafna meirihluta þjóðarinnar vegna þess að viðkomandi einstaklingar eru ekki þekktir fyrir. Það er fjölmiðlanna að sjá til þess að allir, óháð stétt eða stöðu, geti komið að hugmyndum sínum og stefnu þannig að þjóðin sé upplýst um alla kosti sem eru í boði, ekki bara þá þekktu.

Ég geri mér grein fyrir því að brekkan er mér brattari en þekktari einstaklingum, en engin brekka er svo brött að hún verði ekki gengin og ekkert er óyfirstíganlegt,” segir Jón ennfremur.