Jón dregur framboð sitt til baka

Jón Lárusson, lögreglumaður á Selfossi, hefur ákveðið að draga framboð sitt til embættis forseta Íslands til baka.

„Í ljósi þess að þann 15. maí er skilafrestur meðmælendalista til kjörstjórna og þar sem ég hef ekki náð að afla tilskyldum fjölda meðmælenda, þá á ég engra kosta völ en að draga framboð mitt til embættis forseta Íslands til baka,“ segir í fréttatilkynningu sem Jón sendi frá sér í kvöld.

„Ég vil skila þakklæti mínu til allra þeirra sem sett hafa nafn sitt við framboð mitt og hefur það vakið hjá mér von til þess að almenningur sé að átta sig á þeim breytingum sem þurfa að verða í samfélagi okkar.“

Jón segir að sá tími sem liðinn er frá því að hann gaf kost á sér, hafi opinberað fyrir sér það sem hann í raun taldi sig vita, að þó við viljum meina að við séum öll jöfn, þá séu sumir jafnari en aðrir.

„Sú ákvörðun fjölmiðla að framboð mitt væri ekki „alvöru“ og ætti því ekki erindi á borð þeirra, hefur verið mikill dragbítur og vakning sem varð á framboði mínu eftir að fjölmiðlar neyddust til að taka tillit til þess, hefur opinberað þessa staðreynd. Fjölmiðlar virðast hafa „ákveðið“ hvaða einstaklingar skulu vera í boði í næstu kosningum og sumir fjölmiðlar hafa jafnvel ákveðið hvor þeirra muni bera sigur úr bítum,“ segir Jón.

„Fjölmiðlar hafa lengi verið kallaðir fjórða valdið og hefur þeim sjálfum þótt ástæða til að nefna það. Hins vegar verður almenningur að átta sig á því að þetta vald er sjálftekið og því hættulegt lýðræðinu sé það ekki höndlað með gát. Við höfum ætíð látið fjölmiðlum eftir að hafa eftirlit með starfi sínu, en síðustu mánuðir hafa sýnt að þeir eru ekki verðir þess trausts sem þeir hafa haft.“

Jón segir kosningarnar vera alvörumál og því skipti máli að kjósendur kynni sér vel þá einstaklinga sem eru í boði og hvað þeir standa fyrir og hafa gert.

„Við getum ekki treyst því að aðrir upplýsi okkur, heldur verðum við að gera það sjálf. Í dag þurfum við forseta sem hefur þor til að standa með þjóðinni, en ekki forseta sem ætlar að horfa hlutlaus á þegar gengið er gegn hagsmunum okkar,“ segir Jón að lokum.

Fyrri greinPáll Sveinsson: Hvers vegna golf?
Næsta greinArilíus og Ingi Rafn í Ægi