Jómfrúrferð Herjólfs IV í Landeyjahöfn

Herjólfur IV siglir inn í Landeyjahöfn. Ljósmynd/Vegagerðin

Herjólfur fjórði sigldi í fyrsta sinn í Landeyjahöfn síðastliðinn föstudag, þann 21. júní.

„Tilgangur ferðarinnar var að sigla í höfnina í fyrsta skipti og sjá hvernig það passar við hafnarmannvirkin í Landeyjahöfn,“ segir Ívar Torfason fyrsti skipstjóri Herjólfs. Ferðin gekk mjög vel enda gátu aðstæður vart verið betri. Siglingin gekk eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og þær breytingar sem þarf að gera á hafnarmannirkjum eru smávægilegar.

Ívar segir spennandi að sigla hinu nýja skipi enda sé það skemmtilegt og öflugt. Engin leið sé að bera saman því að sigla nýja og gamla Herjólfi. „Þeir eiga í raun ekkert sameiginlegt. Það er alveg gerólík nálgun að sigla hinu nýja skipi enda allt annar stjórnbúnaður. Þú þarft í raun að henda öllu sem þú kannt og byrja upp á nýtt,“ segir hann glettinn.

Áhöfn Herjólfs IV heldur áfram að æfa sig næstu daga og vikur. Til dæmis þarf að sjá hvernig er að sigla skipinu í verra veðri. „Skipið ristir minna, er léttara og því finnur maður meira fyrir vindi,“ lýsir Ívar.

Ekki er komin föst tímasetning á hvenær skipið siglir sína fyrstu ferð með farþega. Áhöfnin þarf tíma til að æfa sig og þjálfa en auk þess þarf að gera einhverjar breytingar á hafnarmannvirkjum í Vestmannaeyjum.

Fyrri greinVegagerðin vék frá eigin skilmálum
Næsta greinJafnt í toppslagnum í Þorlákshöfn