Jólin kvödd á Selfossi

Selfyssingar og nærsveitungar kvöddu jólin í kvöld með glæsilegri þrettándagleði; blysför, brennu og flugeldasýningu undir stjórn Ungmennafélags Selfoss.

Farin var blysför frá Tryggvaskála að brennustæðinu við Gesthús með jólasveina og tröll úr Ingólfsfjalli fremst í flokki. Síðan var kveikt í brennu og UMFS og Björgunarfélag Árborgar skutu svo á loft glæsilegri flugeldasýningu af Fjallinu eina.

Þrettándagleðinni var frestað í vikunni vegna slæmrar veðurspár. Veðrið í kvöld var hins vegar frábært enda var mikill fjöldi fólks saman kominn við brennuna undir stjörnubjörtum himni.

Fyrri greinSkeiða- og Gnúpverjahreppur fékk flest atkvæði
Næsta greinLeitað við Ölfusá í dag