Góðir gestir litu við á jólaballi viðbragðsaðila á Suðurlandi í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag. Vegna mikils álags hjá jólasveinunum í Ingólfsfjalli þurfti að kalla til þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, sem sótti þá og flutti á jólaballið.
Jólasveinarnir sigu úr gæsluþyrlunni fyrir utan björgunarmiðstöðina, sem vakti mikla gleði hjá bæði börnum og fullorðnum. Þeir voru ekki einu gestir dagsins því Bjössi Brunabangsi var á svæðinu og Jón Skeiðungur Bjarnason hélt svo uppi stuðinu.
Það voru starfsmannafélög Brunavarna Árnessýslu, Lögreglunnar á Suðurlandi og sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem stóðu að þessari skemmtun og fjölskyldur viðbragðsaðila nutu skemmtilegrar dagskrár þar sem fjörið var mikið.


