Jólasleðanum stolið úr nýja miðbænum

Ólafur Hlynur og Hanna Sigga við gamla sleðann sem hvarf úr miðbænum. Ljósmynd/Aðsend

Sérsmíðaður jólasleði var tekinn ófrjálsri hendi fyrir utan jólabúðina Mistilteinn í nýja miðbænum á Selfossi í nótt.

„Við tókum eftir að sleðinn var horfinn í morgun þegar við mættum til vinnu. En þá hafði hann greinilega verið brotinn líka því nokkrar spýtur úr honum voru á staðnum,“ segir Ólafur Hlynur Guðmarsson, eigandi Mistilteins, í samtali við sunnlenska.is.

Tákn fyrir miðbæinn
„Þetta er jólasleði, sérsmíðaður og þolir það að heil fjölskylda sitji í honum saman. Það sem gerir hann sérstakann er það að hann var orðinn hálfgert tákn í miðbænum og afar vinsæll viðkomustaður. Fólk á öllum aldri hefur setið í sleðanum og höfum við starfsmennirnir oft hlaupið út til að taka myndir svo allir geti verið saman á einni mynd.

„Sá sem tók sleðann má endilega skilja hann eftir á áberandi stað og við treystum á okkar frábæra fólk í Árborg að láta okkur vita ef það sér hann. Miðbærinn hefur svo sannarlega slegið í gegn eftir að hann var opnaður og það má búast við fjölda fólks fyrir jólin og því mikilvægt að við náum að endurhanna sleðann ef við endurheimtum hann ekki.“

Ólafur segir að það séu myndavélar inni í öllum verslunum í nýja miðbænum en engin úti en þau hafi þó einhverjar vísbendingar. „Það sást til tveggja manna bera sleðann burt.“

„Hafi einhver tök á að hjálpa okkur með smíði á nýjum sleða fyrir okkur þá má hinn sá sami senda okkur póst á mistilteinn@mistilteinn.is,“ segir Ólafur að lokum.

Fyrri greinHamar-Þór hafði völdin í seinni hálfleik
Næsta greinGul viðvörun: Líklegt að vegum verði lokað