Jólasamvera hjá Krabbameinsfélaginu

Ljósmynd/Krabbameinsfélag Árnessýslu

Laugardaginn 2. desember verður fjölskyldusamvera hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu, í húsnæði félagsins að Eyrarvegi 31.

„Framundan er jólamánuðurinn sem hefur bæði hlýjan sjarma og gleði í för með sér en á sama tíma getur hann reynst mörgum erfiður af ýmsum ástæðum. Félagið mun leggja áherslu samverur í desember þar sem félagsmenn finna styrkinn í að tilheyra samfélagi sem byggir á skilningi, trausti og umhyggju,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Svanhildur Ólafsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Laugardaginn 2. desember ætlum við að hittast með börnum eða barnabörnum og skreyttar verða piparkökur og piparkökuhús, heitt súkkulaði verður í boði og eflaust verður stolist í að smakka nokkrar vel skreyttar piparkökur.“

„Að kvöldi 2. desember verður svo jólaveisla í Tryggvaskála þar sem félagsmenn koma saman ásamt mökum eða öðrum nánustu aðstandendum og gæða sér á góðum mat, spjalla og eiga saman notalega stund,“ segir Svanhildur en Krabbameinsfélag Árnessýslu heldur úti öflugu og fjölbreyttu félagsstarfi nær allt árið um kring sem sinnt er af sjálfboðaliðum sem leggja metnað sinn og krafta í að mæta félagsmönnum á þeirra forsendum.“

Ljósmynd/Krabbameinsfélag Árnessýslu

Fjölbreyttir og skemmtilegir hópar
Nóg hefur verið að gera hjá félaginu í nóvember. Má þar nefna þátttöku á fjarnámskeiði á vegum Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands sem félagið bauð upp á í félagsaðstöðunni á Eyraveginum.

„Endurhæfingarhópurinn mætti reglulega í hreyfingu tvisvar sinnum í viku, hittist í sálgæslu þar sem alvöru „trúnó“ fer fram og lærði einnig ýmsa nýja iðju. Hópnum er margt til listanna lagt og fengu þau nýlega kennslu í að mála á steina og hekla snjókorn sem eflaust eiga eftir að prýða heimili þeirra um jólin. Karlahópurinn fékk matreiðslumanninn Ole Olesen í heimsókn sem kenndi þeim að grafa bleikju og lax, handavinnuhópurinn Upprekjurnar voru með ýmislegt á prjónunum og kvennaspjallhópurinn okkar var endurvakinn eftir tæplega þriggja ára hlé.“

„Það er alltaf notalegt að koma á Eyraveginn, í fallegu og hlýlegu félagsaðstöðuna okkar sem við erum svo þakklát fyrir að hafa. Dagskrá desembermánaðar má finna á Facebook-síðu félagsins og í Facebook-hópnum Brosið þar sem reglulega koma inn fréttir af starfseminni.

Minnum á símann okkar 482 1022 og netfangið okkar, arnessysla@krabb.is
Óskum ykkur notalegra stunda í desember, munið að huga að ykkur sjálfum og þiggja þann stuðning og styrk sem þið þurfið á að halda,“ segir Svanhildur að lokum.

Ljósmynd/Krabbameinsfélag Árnessýslu
Fyrri greinAðventukvöld í verslun Líflands á Selfossi
Næsta greinHrífandi tónleikar Kórs FSu