Jólamarkaður á Laugarvatni á laugardaginn

Frá jólamarkaðnum 2023. Ljósmynd/Aðsend

Jólamarkaður Kvenfélags Laugdæla verður í Héraðsskólanum að Laugarvatni 29. nóvember næstkomandi klukkan 13:00.

Að venju verður nóg um að vera, vöfflusala, heitt kakó, jólaglögg og mun Lionsklúbbur Laugardals bjóða upp á blóðsykursmælingu og selja flotkerti. Fontana mun einnig, eins og undanfarin ár, bjóða gestum og gangandi upp á heitt kakó og smákökur.

Í ár heldur Kvenfélag Laugdæla upp á 65 ára afmæli en félagið var stofnað 26. maí 1960. Meðalaldur virkra félagskvenna er 46 ár, þá eru þær yngstu 27 ára og þær elstu 68 ára. Eru þá ekki meðtaldar þær konur sem eru heiðursfélagar. Þetta breiða aldursbil endurspeglar styrk félagsins og sameinar ólíkar kynslóðir, sem er dýrmætt í þeim veruleika sem kvenfélögin standa frammi fyrir.

Ekki óeðlilegt að starf kvenfélaga þróist
Formaður Kvenfélags Laugdæla er Helga Kristín Sæbjörnsdóttir. Hún segir í samtali við sunnlenska.is að í dag sé framboð ýmissa félagstengdra viðburða mikið og heilmikil félagsleg samkeppni orðin að veruleika. „Það er því ekki óeðlilegt að starf kvenfélaga þróist og breytist í takt við samfélagið þrátt fyrir að við höldum í gamlar hefðir sem stuðla að menningarlegum verðmætum,“ segir Helga.

„Það sem áður var er í mörgum tilfellum minningin ein en hraði samfélagsins, auknar kröfur og áreiti breytir óneitanlega myndinni og flækir þátttöku í félagsstarfi umtalsvert. Það er því enn mikilvægara að halda í kvenfélögin og starfsemi þeirra en á sama tíma leyfa þeim að þróast í takt við samfélagsgerðina.“

„Við þurfum að leyfa yngri konum að koma inn með nýjar hugmyndir og styðja við þátttöku þeirra eins og kostur er. Það er erfitt að fá fólk til þess að vinna sjálfboðavinnu á þessum hraða og því metum við þátttöku kvenna í kvenfélagsstarfi mikils. Það þarf að passa upp á það að hafa líka gaman og njóta stundarinnar um leið og við styðjum við samfélagið okkar,“ bætir Helga við.

Valdeflandi að taka þátt
Kvenfélag Laugdæla heldur tvær fjáraflanir á ári, annars vegar jólamarkað og hins vegar 17. júní kaffi.

„Ágóðinn rennur til málefna í Uppsveitunum og höfum við reynt að styðja við bæði stofnanir og einstaklinga. Það er okkur mikils virði að geta boðið konum að taka þátt í uppbyggingu og ekki síður samstarfi eins og kvenfélög Uppsveitanna hafa unnið ötullega að. Það er valdefling í því að taka þátt og taka afstöðu til málefna í sveitinni.“

„Við ætlum að njóta aðventunnar og hefja hana formlega um næstu helgi á Laugarvatni. Við hlökkum til að sjá ykkur öll á jólamarkaði 29. nóvember í rjúkandi vöfflum og glöggi,“ segir Helga að lokum.

Fyrri grein„Feluleikir“ fjórða bók Lilju
Næsta greinGul viðvörun vegna hríðar og storms