Jólaljósin skína skært í Árborg

Í dag kl. 18:00 kveikti Pétur Berg Aronsson, yngsta afmælisbarn dagsins í Árborg, á jólaljósunum í sveitarfélaginu við hátíðlega athöfn fyrir framan bókasafnið á Selfossi.

Athöfnin hófst með tónlistarflutningi Karítasar Hörpu Davíðsdóttur sem söng tvö lög og svo tók Barnakór Selfosskirkju við og söng undir stjórn Edit Molnár.

Hefð er orðin fyrir þessum viðburði í sveitarfélaginu og er hann iðulega vel sóttur. Svo var einnig í kvöld en fólk stoppaði stutt við enda -12°C frost og mörgum sjálfsagt kalt á nebbanum.

Jólatorgið við Ölfusárbrú var einnig opnað í dag en þar verður handverksmarkaður frá fimmtudegi til laugardags fram að jólum. Viðburðir á sviði um helgar, jólatónlist og markaðsstemning.

Í kvöld verða svo flestar verslanir á svæðinu með opið lengur og því um að gera að gefa sér góðan tíma og skoða hvað er í boði hjá söluaðilum í heimabyggð.

Fyrri greinEldvarnaátakið sett í Grunnskólanum í Hveragerði
Næsta greinElísa Dagmar söng til sigurs