Jólaljósin kveikt í kuldanum

Jólaljósin í sveitarfélaginu Árborg voru kveikt í dag við stutta og snarpa athöfn í kulda og trekki á tröppunum fyrir framan bókasafnið á Selfossi í dag.

Það viðraði ekki vel til samkomuhalds í dag en fólk lét það ekki á sig fá og ágæt mæting var á viðburðinn. Gestir leituðu skjóls inni í bókasafninu og drukku kakó frá skátunum í Fossbúum áður en dagskráin hófst.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, flutti stutt ávarp, Magnús Kjartan Eyjólfsson söng og lék tvö jólalög á gítarinn vettlingalaus og Barna- og unglingakór Selfosskirkju söng þrjú lög af stakri prýði á meðan vindurinn gnauðaði.

Kolbrún Skúladóttir, 4 ára, aðstoðaði svo starfsmenn sveitarfélagsins við að kveikja á ljósunum en Kolbrún er yngsta afmælisbarn dagsins í Árborg.

Að því loknu var aftur tekið til við kakódrykkju inni á bókasafninu. Fjöldi verslana var með opið fram á kvöld og nýttu sér margir þau jólatilboð sem þar voru í gangi.