Jólakötturinn í útrýmingarhættu

Í Hveragerði er nú hafið átak í útrýmingu villikatta en ítrekaðar kvartanir hafa borist frá íbúum vegna þeirra að undanförnu.

Dýraeftirlitsmaðurinn í Hveragerði mun leggja sérstaka áherslu á svæðið í kringum Breiðumörk og Heiðmörk en þaðan hafa flestar kvartanir borist.

Í samþykkt um kattahald sem gildir í Hveragerði segir að kattaeigendum beri skylda til að láta örmerkja ketti sína eða auðkenna varanlega með húðflúri í eyra. Héðan í frá mun dýraeftirlitsmaður taka ljósmyndir af þeim ómerktu dýrum sem hann fangar og setja á heimasíðu bæjarins.

Jólakötturinn mun því væntanlega sneiða framhjá Hveragerðisbæ þetta árið, burtséð frá því hvort Hvergerðingar fái allir nýja flík fyrir jólin.

Fyrri greinHótelstjórinn þakkar fyrir sig
Næsta greinAngraði gesti með káfi og rausi