Jólagleði í Tryggvagarði

sunnlenska.is/Jóhanna SH

Það er óhætt að segja að gleðin hafi verið mikil í Tryggvagarði á Selfossi í morgun þegar ljósin á jólatrénu voru tendruð þar að viðstöddum kátum krökkum.

Hefð er fyrir því að elsti árgangur leikskólanna á Selfossi taki þátt í þessum viðburði og lögðu sum börnin á sig langa og kalda göngu til að taka þátt í gleðinni.

Tónlistarmaðurinn Alexander Freyr Olgeirsson spilaði á gítar og söng jólalög fyrir börnin, sem tóku vel undir. Eftir að hafa talið hvað Adam átti marga syni var ákveðið að telja niður frá tíu og ljósin voru svo tendruð við mikla og einlæga gleði barnanna. Börnin tókust svo í hendur og dönsuðu í kringum jólatréð eins og þeim einum er lagið.

Nú eru 26 dagar til jóla og tilhlökkun barnanna leyndi sér ekki þegar þau óskuðu öllum viðstöddum gleðilegra jóla.

sunnlenska.is/Jóhanna SH
sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinNíu smásagnahöfundar verðlaunaðir
Næsta greinGvendarkjör fá styrk frá innviðaráðuneytinu