Jólabjórinn frá Ölvisholti ber af

Vínsmakkarar Vínóteksins komu saman í gær og fóru yfir flóru íslensku jólabjóranna. Einn bjór stóð uppúr hjá smökkurunum en það var Jólabjórinn frá Ölvisholti.

Bjórarnir voru smakkaðir blint þ.e. smakkarar vissu ekki hvaða bjór þeir voru að smakka hverju sinni að öðru leyti en því að bjórunum var skipt upp í tvo flokka. Fyrst voru smakkaðir hefðbundnir bjórar, lagerar og bock. Að því búnu voru smakkaðir öflugri kraftbjórar.

Almennt voru gæði bjóranna góð en niðurstaðan var hins vegar skýr og um hana voru allir í hópnum sammála. Jólabjórinn frá Ölvisholti stóð uppúr sem jólabjór ársins 2012.

„Ef Íslendingur vill kaupa jólabjór þá er þetta hann,“ sagði einn úr hópi bjórsmakkaranna. Ölvisholtsbjórinn er afskaplega karaktermikill, fallega dökkur út í vínrautt með angan af reyk,, karamellu, appelsína og negull. Sem sagt afskaplega jólalegur. Fylling er meðal. Þarna er mikið um að vera, mikið af reykmiklu malti. „Þetta er öruggt skref, án þess að vera leiðinlegur. Bjór fyrir alla, ekki bara bjórnörda,“ sagði einn smakkarinn.“Þetta er það sem allir vilja,“ sagði annar. Eina sem mætti setja út á hann er að hann mætti hafa ögn meira humalbit.

Í flokki kraftbjóranna var það hins vegar Giljagaur frá Borg Brugghús sem hafði vinninginn.

Þeir sem smökkuðu bjórana voru Steingrímur Sigurgeirsson ritstjóri Vínóteksins, Þorri Hringsson, myndlistarmaður og vínsmakkari, R. Freyr Rúnarsson, sem heldur úti bjórsíðunni bjorbok.net og Haukur Heiðar Leifsson, sem skrifar á ratebeer og bloggar á Malted Thoughts (maltedthoughts.blogspot.com).

Sjá nánar á heimasíðu Vínóteks http://www.vinotek.is/2012/11/16/jolabjorinn-hver-ber-af/

Fyrri greinÞórsarar skipta um Kana
Næsta greinKynþokkinn lekur af sjúkraflutningamönnunum