Jólabjór Ölvisholts kominn í verslanir

Bjórunnendur hafa beðið þolinmóðir eftir jólabjórnum frá Ölvisholti Brugghúsi en hann kemur í verslanir Vínbúðarinnar um eða eftir helgi.

Jólabjórinn í ár er léttreyktur bock, svipaður og jólabjórinn í fyrra en nokkuð þróaðaðri útgáfa að sögn Jóns E. Gunnlaugssonar, rekstrarstjóra brugghússins.

„Hann er aðeins dekkri, hnetubrúnn með meiri fyllingu og kryddaður með negul. Síðan notum við kristalmalt sem eykur sætuna í honum,“ segir Jón og bætir við að bjórinn henti vel með mat, hátíðarsteikinni eða hangikjötinu.

Það er Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari, sem ber hitann og þungann af uppskriftinni en þróunardeild fyrirtækisins kom einnig að því verki. „Við erum aðeins seinna á ferðinni með jólabjórinn en aðrir framleiðendur enda þurfti þróunardeildin sinn tíma fyrir þetta meistaraverk,“ segir Jón og bætir við að framleiðslan muni örugglega seljast fljótt og örugglega. Brugghúsið sendir frá sér tæplega tíu þúsund flöskur og reynslan frá því í fyrra sýnir að hann er eftirsóttur.

Auk þess að selja jólabjór á innanlandsmarkað er jólabjór Ölvisholts fáanlegur í Systembolaget í Svíþjóð. „Þeir sérpöntuðu frá okkur 18.000 flöskur en það er sama uppskrift og var í jólabjórnum hér heima í fyrra. Svíarnir bjóða þetta út og við sendum þeim sýnishorn í janúar. Við unnum útboðið í þessum flokki og erum hæstánægðir með viðtökurnar sem við höfum fengið í Svíþjóð,“ segir Jón að lokum.

Fyrri greinGatnagerð slegið á frest
Næsta greinMótmæla harkalegum niðurskurði