Jólaandinn svífur um í Iðu

Það er mikið um að vera í íþróttahúsinu Iðu en í kvöld fara þar fram jólatónleikarnir Hátíð í bæ. Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi, stendur fyrir tónleikunum í fimmta skipti.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 í kvöld og að sögn Kjartans er eitthvað til af miðum í öll svæði. Þessir jólatónleikar hafa fest sig í sessi í jólaundirbúningi Sunnlendinga en Kjartan leggur mikið upp úr því að leyfa ungum og efnilegum flytjendum úr heimahéraði að njóta sín, auk þess sem landsfrægir tónlistarmenn stíga á stokk. Um níutíu manns verða á sviðinu í kvöld.

“Flytjendur að þessu sinni eru Jórukórinn undir stjórn Helenu Káradóttur, þríeykið Jóhanna Ómarsdóttir frá Selfossi, Karítas Davíðsdóttir frá Stokkseyri og Ölfusingurinn magnaði Daníel Haukur Arnarson sem sló rækilega í gegn á síðustu tónleikum, allt ungt og efnilegt söngfólk úr héraði,” segir Kjartan. “Einnig kemur fram barna-strengjasveit, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, verður með okkur líkt og frá upphafi, Pálmi Gunnarsson, Rangæingurinn Maríanna Másdóttir, Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands undir stjórn Stefáns Þorleifssonar og hinn magnaði Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari sem er sunnlenskur að uppruna,” bætir Kjartan við.

Auk þess verður árvisst leyniatriði á tónleikunum en undirleikari er Vignir Þór Stefánsson og kynnir er Hrunapresturinn sr. Eiríkur Jóhannsson.

“Það er mikil vinna í kringum tónleika eins og þessa en ég hef ákaflega gaman af þessu og er fullur eftirvæntingar fyrir tónleikana,” segir Kjartan. “Ég hlakka mikið til að sjá tónleikagestina og alla þá sem þarna verða með okkur í jólaandanum, það verður sannkölluð hátíð í bæ.”