Jól í skókassa hluti af jólaundirbúningnum

BES á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag býður foreldrafélag Barnaskólans á Eyrabakka og Stokkseyri nemendum og foreldrum þeirra að koma í grunnskólann á Stokkseyri og taka þátt í verkefninu „Jól í skókassa“.

Þetta er í annað sinn sem foreldrafélagið tekur þátt í verkefninu sem er á vegum KFUM og K. Markmiðið með verkefninu er að gleðja bágstödd börn í Úkraínu með jólagjöfum og sýna þannig kærleika í verki. Gjöfunum verður svo dreift á munaðarleysingjahæli, barnaspítala og til einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt í Úkraínu.

Eftir skóla svo mamma og pabbi geti verið með
Ragnheiður Eggertsdóttir er gjaldkeri í foreldrafélaginu í barnaskólanum á Eyrabakka og Stokkseyri. Hún segist hafa kynnst verkefninu í gegnum son sinn. „Sonur minn var í Þjórsárskóla sem tók þátt í að útbúa gjafir í tengslum við Jól í skókassa. Þegar við svo fluttum á Stokkseyri þá fannst honum leiðinlegt að skólinn væri ekki með í þessu verkefni vegna þess að fyrir honum var þetta hluti af jólaundirbúningnum.” Í fyrra var gjöfunum safnað saman á skólatíma en að þessu sinn var ákveðið að hafa þetta eftir skóla svo að foreldrar gætu tekið þátt.

57 skókassar í fyrra
Ragnheiður segir að í fyrra hafi 57 skókassar verið útbúnir á Stokkseyri og þeir sendir á vegum KFUM og K til Úkraínu. „Fólk getur komið til okkar með gjafir sem það hefur keypt eða hefur búið til sjálft. Gjafirnar eru bæði fyrir stráka og stelpur og eru merktar fyrir hvort kynið þær eru. Jafnframt er hægt að merkja þannig að sjá megi hvaða aldri gjafirnar henta,” segir Ragnheiður og bætir við að þetta verkefni sé bæði skemmtilegt og gefandi.

Tannbursti og tannkrem í alla skókassa
Hún segir gjafirnar sem börnin ákveða að gefa séu allar eftirminnilegar. Þetta séu gjafir sem þau hafa valið að gefa sjálf, annað hvort leikföng eða fatnaður. „Leikföngin þurfa til dæmis ekki að vera ný heldur eitthvað sem þau geta séð af og eru ekki mikið snjáð,” segir Ragnheiður. Hún segir að á þessu ári verði bæði tannbursti og tannkrem sett í alla kassa sem útbúnir verða.

Eins og áður segir munu kassarnir verða útbúnir í grunnskólanum á Stokkseyri á þriðjudaginn og hefst samkoman kl. 17. Við sama tækifæri ætlar tíundi bekkur skólans að selja veitingar í fjáröflunarskyni.

Fyrri greinEyþór Ingi syngur alla vikuna
Næsta greinÓveður undir Eyjafjöllum