Jökulmælingar Hvolsskóla fengu styrk úr Samfélagssjóði

Hvolsskóli á Hvolsvelli hlaut á miðvikudag 500.000 kr. styrk úr Samfélagssjóði Landsbankans til að gefa nemendum í 7. bekk skólans kost á að stunda árlegar jökulmælingar á Sólheimajökli.

Nemendur hafa mælt hop jökulsins frá haustinu 2010 með því að nota GPS-tækni og nú í seinni tíð einnig með dróna.

Mælingarnar hafa vakið töluverða athygli enda er um að ræða metnaðarfullt verkefni sem gerir nemendum kleift að rannsaka og upplifa hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á nærumhverfi þeirra.

Jón Stefánsson, kennari við Hvolsskóla og verkefnisstjóri Grænfánaverkefnsins og umhverfismála í skólanum, segir að nemendum þyki jökulmælingar bæði spennandi og skemmtilegar.

„Þegar við byrjuðum á verkefninu fyrir fimm árum fengum við lánaðan jöklabúnað til að komast upp á jökulsporðinn. Á þessum stutta tíma hefur jökullinn hopað um 200 metra og þynnst mikið. Um leið hefur myndast lón fyrir framan jökulinn. Það er ekki lengur hægt að komast upp á jökulinn á þessum stað. Undanfarin ár höfum við mælt stærð lónsins og dýpt úr báti og hefur Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli aðstoðað okkur við það. Mælingar okkar hafa leitt í ljós að lónið er 60 metrar að dýpt og það væri því hægt að stafla 11 Hvolsskólum ofan í lónið,“ segir Jón.

Jón segir að styrkurinn úr Samfélagssjóði Landsbankans muni m.a. nýtast til að greiða kostnað við ferðir að jöklinum og siglingu á lóninu.

Jón og nemendur hans í Hvolsskóla hafa annað verkefni í sigtinu. Í Fljótshlíðinni, innan Hvolsvallar, stendur Tunguskógur, gamall og gróinn skógur sem er í eigu sveitarfélagsins. „Við höfum áhuga á að leggja göngustíga í skóginum og að þar verði komið fyrir leiktækjum, grilli og þess háttar. Við ætlum meðal annars að verða okkur út af loftmynd af skóginum og síðan munu nemendur taka þátt í að hanna göngustíga og útivistarsvæðið og jafnframt leggja hönd á plóg við breytingarnar,“ segir Jón.

Hægt er að fræðast meira um jökulmælingarnar á vef Jóns Stefánssonar.

Fyrri greinNý hæð tekin í gagnið næsta sumar
Næsta greinDagbók lögreglu: Ölvaður ökumaður klipptur út eftir veltu