Jökulhlaup undan Entujökli

Entujökull. Stóra-Mófell og Mófellshnausar í forgrunni. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Jökulhlaup er líklega hafið í Fremri Emstruá en skálaverðir í Emstruskála tilkynntu Veðurstofunni um megna brennisteinslykt þar í morgun.

Fremri Emstruá á upptök sín í Entujökli og rennur síðan í Markarfljót, en smá jökulhlaup með mikilli brennisteinslykt eru nærri árlega á þessu svæði.

Veðurstofan ítrekar í tilkynningu að ekki sé búist við mikilli hættu af hlaupvatninu, en gasmengun við upptök árinnar og í lægðum í landslaginu umhverfis ána getur skapað hættu. Gasmengun getur m.a. valdið ertingu augum og hálsi og ef fólk verður vart við það er því ráðlagt að koma sér ofar í landslagi og fjær ánni.

Lyktarskyn getur mettast í háum styrk gassins og því ekki hægt að treysta alfarið á lyktarskyn sem viðvörun. Búast má við því að jökulhlaupið standi yfir í nokkra daga.

Náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist áfram með þróun atburðarins og er í sambandi við fólk á svæðinu.

Fyrri greinOrka náttúrunnar og GeoSalmo gera samning um raforkukaup
Næsta greinFjör á Héraðsleikum og Aldursflokkamóti HSK