Jökulhaftið við það að bresta

Jökulhaftið milli Gígjökuls og gígsins á toppi Eyjafjallajökuls er við það að bresta. Við það munu eitraðar lofttegundir s.s. koltvísýringur og brennisteinsvetni eiga greiðari leið niður Gígjökul og út á eyrarnar framanvið jökulinn.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að eldgosum sem þessu geti fylgt gusthlaup sem fara niður farvegi eins og Gígjökul. Gusthlaup, eru ekki algeng, en þau verða þegar blanda af gasi og fínkorna bergryki mynda lága bólstra yfir gjósandi gígum eða þegar aska hrynur úr ofhlöðnum gosmekki. Gusthlaup fara undan halla og fara hratt yfir svo ástæða er til að forðast hugsanlega farvegi þeirra.

Undanfarið hefur fólk sótt töluvert í að komast inn á lokuð hættusvæði í grennd við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. Almannavarnir segja að þó svo náttúruhamfarirnar séu mikið sjónarspil sem áhugavert er að skoða þá er ástæða til að árétta þær hættur sem því geta fylgt.

Ekki er vitað með vissu hvaða áhrif umbrotin hafa haft á jökulinn sjálfan. Sprungur geta hafa myndast og vitað er um a.m.k. eina vatnsrás, um 50 metra djúpa á sunnanverðum jöklinum.