Jóhannes kosinn heiðursformaður

Jóhannes Sigmundsson frá Syðra-Langholti var í morgun kosinn heiðursformaður Héraðssambandsins Skarphéðins á ársþingi sambandsins á Hellu.

Þingið samþykkti með lófaklappi tillögu frá stjórn HSK. Jóhannes sem verður áttræður á árinu hætti sem formaður HSK fyrir 35 árum síðan en hefur allar götur síðan tekið virkan þátt í starfi sambandsins.

Jóhannes var kosinn formaður HSK árið 1966 þegar Sigurður Greipsson lét af störfum. Jóhannes sinnti embættinu með glæsibrag í 10 ár.

Jóhannes situr í sögu- og minjanefnd HSK, átti sæti í ritnefnd sambandsins vegna útgáfu á bókinni HSK í 100 ár og hefur alltaf verið boðinn og búinn að taka þátt í störfum sambandsins.

Jóhannes þakkaði fyrir sig í ræðu og sagðist hrærður yfir því að vera heiðraður á þennan hátt.

Þetta er í annað sinn sem heiðursformaður HSK er kosinn, sá fyrsti var Sigurður Greipsson, sem var gerður að heiðursformanni um leið og hann lét af formennsku árið 1966.

Fyrri greinTap á rekstri sambandsins
Næsta greinRed Square vodkabar opnaður í kvöld