Jóhanna Ýr vill leiða Framsókn í Hveragerði

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri Framsóknar og bæjarfulltrúi B-listans í Hveragerði, gefur kost á sér í 1. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Undanfarna mánuði hef ég hitt margt fólk sem hefur áhuga á framgangi og vexti Hveragerðis. Í þessum samtölum hefur fólk deilt með mér sýn á það hvernig við viljum sjá framtíð og stjórn bæjarins þróast og hvernig við viljum bæta þjónustu á komandi árum. Hveragerði er bær í örum vexti og því mikilvægt að uppbygging innviða og þjónusta við íbúa haldist sem best. Jafnframt að okkur takist að varðveita þá bæjarmynd sem við nú þegar höfum og er okkur kær. Ég vil leggja áherslu á góða samvinnu og opið og virkt samtal um það hvernig við í sameiningu gerum Hveragerði að betri bæ,“ segir Jóhanna meðal annars í framboðstilkynningu sinni.

Á núverandi kjörtímabili kom Jóhanna Ýr sem varabæjarfulltrúi og síðan bæjarfulltrúi frá árinu 2020. Hún hefur setið í umhverfisnefnd bæjarins og verið varamaður í skipulags- og mannvirkjanefnd. Áður sat hún í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 2010-2014.

Jóhanna Ýr er með BA- próf í guðfræði, diploma í kennslufræði og hefur lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Hún er formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurlands og hefur tekið virkan þátt í sjálfboðavinnu á sviði íþrótta- og menningarmála, unnið að málefnum fatlað fólks, starfað á sviði fræðslu, æskulýðs og menntamála og gegnt fjölda trúnaðarstarfa.

Fyrri greinSelfoss enn án stiga
Næsta greinSelfoss vann í spennuleik