Jóhanna vígð til þjónustu á Sólheimum

Um síðustu helgi vígði vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur Ingólfsson, Jóhönnu Magnúsdóttur cand.theol. til þjónustu á Sólheimum í Grímsnesi.

Vígslan fór fram í Skálholtsdómkirkju sunnudaginn 15. nóvember síðastliðinn en Sólheimar heyra undir Skálholtsprestakall í Suðurprófastsdæmi.

Vígsluvottar ásamt þeim sem þjónuðu með vígslubiskupi voru séra Egill Hallgrímsson, séra Halldóra J. Þorvarðardóttir, séra Birgir Thomsen, séra Valgeir Ástráðsson, séra Elína Hrund Kristjánsdóttir og Guðmundur Ármann Pétursson.

Fjölmenni var við athöfnina, sem var hin hátíðlegasta í alla staði. Skálholtskirkja var svo að segja fullsetin, enda voru þar mættir til leiks flestir íbúar, starfsfólk og sjálfboðaliðar á Sólheimum, ásamt öðrum gestum.

Eftir athöfn var boðið til messukaffis í Skálholtsskóla, en Sölvi B. Hilmarsson sá um veitingar, auk þess sem bakarinn á Sólheimum, Dörthe Zenker bakaði hjónabandssælu, eplakökur og hnellur sem runnu ljúflega ofan í mannskapinn.

Fyrri greinFjórar í U20 og Kristrún í afrekshópi
Næsta greinElti GPS tækið upp á Kjöl