Jóhann og Halldóra gefa kost á sér

Jóhann Friðrik Friðriksson.

Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis og forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, gefur kost á sér í 2. sætið í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Í tilkynningu á Facebooksíðu sinni segir Jóhann Friðrik að hann hafi á undanförnum árum tekist á við veigamikil og krefjandi verkefni, bæði sem forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og nú sem formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

„Á sviði stjórnmála hef ég hef lagt þunga áherslu á atvinnuuppbyggingu, umhverfismál, menntamál og lýðheilsu. Síðastliðin tvö ár hef ég farið fyrir framsýnum og öflugum hópi fólks sem framkvæmdastjóri Keilis á Ásbrú sem í senn hefur verið gefandi og lærdómsríkt. Við glímum nú við ærnar áskoranir sem samfélag. Okkar bíður það verkefni að leiða uppbyggingu og kröftuga viðspyrnu sem tryggir jöfn tækifæri og lífsgæði íslensku þjóðarinnar. Í þeim verkefnum munu hugsjónir framsóknar um samvinnu, manngildi og framsækni skila mestum árangri. Framtíðin ræðst á miðjunni,“ segir Jóhann Friðrik.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Halldóra gefur kost á sér í 3.-4. sæti
Þá hefur Halldóra Fríða Þorvalsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar gefið kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjörinu.

„Ég hef síðastliðin ár verið virk í starfi Framsóknar og unnið fyrir flokkinn og samfélagið okkar af heilindum og er mjög þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Það hefur verið lærdómsríkt starf á krefjandi tímum að vera varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar en á sama tíma mjög gefandi þegar maður sér mikla vinnusemi leiða af sér stór verkefni sem eru samfélaginu mikilvæg,“ segir Halldóra í tilkynningu á Facebooksíðu sinni, og bætir við að velferðar- og menntamálin séu henni sérstaklega hugleikin.

„Í gegnum ólík verkefni hef ég kynnst krafti flokksmanna og trúi því að stefna flokksins og sá kraftur sem í okkur býr sé það sem þarf til að við rísum enn sterkari upp eftir þær áskoranir sem við höfum glímt við. Þar hefur Framsókn verið í fararbroddi og það væri mikill heiður að fá að taka aukinn þátt í þeirri viðspyrnu. Sem mikil samvinnukona trúi ég því einnig að með samvinnuáherslum flokksins munum við halda áfram veginn sem fjölskylduflokkurinn Framsókn þjóðinni til heilla,“ segir Halldóra.

Fyrri greinHamar vann að lokum – Selfoss og Hrunamenn töpuðu
Næsta greinKFR áfram í bikarnum – Selfoss úr leik