Jóhann gefur kost á sér

Jóhann Nikulásson, bóndi í Stóru-Hildisey 2 og stjórnarmaður í LK, gefur kost á sér til formennsku í Landssambandi kúabænda en kosið verður til formanns á aðalfundi samtakanna 31. mars og 1. apríl nk.

Sigurður Loftsson í Steinsholti hefur gefið það út að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.

„Að undanförnu hafa fjölmargir kúabændur haft samband við mig og […] hvatt mig til þess að gefa kost á mér í formannskjöri á komandi aðalfundi. Ég hef nú í hartnær tvo áratugi gegnt margskonar trúnaðarstörfum á félagslegum vettvangi kúabænda og m.a. verið í stjórn LK frá árinu 2007, í samstarfsnefnd SAM og BÍ frá árinu 2009 auk fleiri starfa. Í þessum trúnaðarstörfum fyrir kúabændur tel ég mig hafa öðlast dýrmæta reynslu sem komi að góðum notum í starfi formanns Landssambands kúabænda og hef því eftir mikla yfirlegu ákveðið að bjóða mig fram til þess að gegna formennsku fyrir samtökin,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Jóhanni sem birtist á heimasíðu sambandsins.

Jóhann er fæddur 1. nóvember árið 1965 og er giftur Sigrúnu Hildi Ragnarsdóttur og eiga þau fjögur uppkomin börn. Þau hófu búskap á vordögum 1991 með kaupum á Akurey 2 í Vestur Landeyjum og bjuggu þar í níu ár eða þar til þau keyptu Stóru Hildisey 2 í Austur Landeyjum. Þar búa þau nú með um 90 kýr í lausagöngufjósi með mjaltabás og eru með greiðslumark upp á rúmlega 500.000 lítra.

Fyrri greinRagnar Ágúst valinn íþróttamaður HSK
Næsta greinAllt of löng bið eftir tíma hjá heimilislækni