Jóhann fékk 1. verðlaun í hönnunarsamkeppni

Jóhann Sigurður Andersen, nemandi í 10. bekk Bláskógaskóla í Reykholti sigraði í alþjóðlegri samkeppni um frumlegustu flugdrekahönnunina sem haldin var síðasta vetur.

Í frétt frá skólanum segir að þar á bæ sé fólk auðvitað rígmontið af vinningshafanum en í Bláskógaskóla Reykholti er mikil gróska, bæði í bóklegu og verklegu námi, enda hæfileikaríkir, úrvalskennarar í hverri skólastofu. Í verkgreinum er vel hlúð að hönnunarþættinum; það á við í myndmennt, handmennt, smíði og leir/glersmiðju.

Flugdrekasmíði hefur verið meðal viðfangsefnanna hjá Arite Fricke, sem kennir listgreinar við skólann. Í tilefni af 25 ára afmæli Drachen Foundation í Seattle í Bandaríkjunum hleypti stofnunin af stokkunum samkeppni um frumlegustu flugdrekahönnunina og tóku nemendur Bláskógaskóla tóku þátt í henni undir leiðsögn Arite.

Til að gera langa sögu stutta voru úrslit tilkynnt á vordögum og hlaut Jóhann Sigurður 1. verðlaun en 25 hönnuðir tóku þátt í samkeppninni.

Vinningshönnun Jóhanns var sett á nælur í þremur litum og fær sess í nælusafni frá frumkvöðlum og hönnuðum á borð við Samuel Franklin Cody og Scott Skinner, fyrrverandi flugmanni og stofnanda Drachen Foundation.

Flugdrekinn hans Jóhanns kallast Sanja-Rokkaku (hefðbundið japanskt flugdrekaform) og er hann gerður úr kínverskum bambus og flugdrekapappír. Innblástur fékk Jóhann úr bók DuMonts Bastelbuch der Drachen og bók Franz Arz Asiatische Drachen selber bauen.


Verðlaunadrekinn.


Flugdrekanæla.


Afurðir nemenda úr flugdrekahönnuninni í skólanum.

Fyrri greinGóðu stangveiðisumri lokið í Veiðivötnum
Næsta greinVegum lokað við Laugarvatn á laugardag