Jóga aldrei vinsælla

Að sögn Rósu Traustadóttur, jógakennara hjá Hugform á Selfossi, hefur jóga aldrei verið vinsælla.

Aðspurð segist hún telja nokkrar ástæður fyrir því að jóga sé svona vinsælt. „Það er meira talað um jóga og meiri almenn umfjöllun um jógaiðkun. Færri halda að jóga sé bara kyrrstaða og hugleiðsla en var. Margir tala um hversu gott þeir hafa haft af jógaástundun, ekki bara líkamlegan ávinning svo sem styrkara stoðkerfi og meiri liðleika, heldur einnig meiri ró í huganum og meiri styrk til að takast á við streitu hversdagsins,“ segir Rósa en hún fagnar um þessar mundir 10 ára starfsafmæli.

Rósa segir að fólk vilji einfalda hlutina og jóga sé hluti af því. „Það er mikilvægast að vera í núinu og sleppa takinu á því sem var og því sem getur orðið. Ég man svo vel eftir meistara mínum Yogi Shanti Desai sem er yndislegur maður, örugglega á áttræðisaldri í dag. Hann sagði alltaf að það væri réttur hvers manns að vera hamingjusamur og ánægður og að það væri eitt það mikilvægasta í þessum heimi,“ segir Rósa.

Elsti jógaiðkandinn á níræðisaldri
Rósa segir að alls konar fólk stundi jóga, af öllum stærðum og gerðum. „Jóga er fyrir alla og hentar öllum. Allir geta fundið stöður við hæfi og fólk þarf ekki að óttast að falla ekki inn í hópinn. Hver og einn er afar sjálfstæður í jógaiðkun sinni, þ.e.a.s. mikil áhersla er lögð á að hver og einn finni sín takmörk og hlusti á líkamann og verði þannig hæfari til að vinna með líkamann og forðast að fara of djúpt í jógaæfingarnar og forðast sársauka,“ segir Rósa og bætir því við að það sé ekkert „dresscode“ í jóga. „Þú kemur bara í þeim fötum sem henta þér svo framarlega sem þú getur teygt þig í þeim. Við notum ekki skó heldur eru flestir berfættir eða í sokkum.“

Að sögn Rósu eru jógaiðkendur á öllum aldrei. „Stærsti hópurinn er á milli 30 og 60 ára, en hjá mér er elsti einstaklingurinn komin yfir áttrætt og yngsti nemandinn hefur líklega verið 12 ára.“

Misskilningur að jóga sé bara fyrir konur
Aðspurð segir Rósa að konur sé stærsti hluti jógaiðkenda. „Karlar hafa líklega þá hugmynd að það sé fremur ókarlmannlegt að stunda jóga. En í jóga er mikil áhersla á styrktarþjálfun líkamans og teygjum sem allir hafa gott af, líka karlmenn. Þeir karlmenn sem hafa byrjað að stunda jóga hjá mér hafa oftast ílengst og verið tryggir iðkendur,“ segir Rósa.

„Konur eru oft fljótari að tileinka sér nýja hluti og prófa ýmislegt en karlmenn aftur á móti halda sér meira til hlés þar til einhver sem þeir þekkja hafa prófað og geta mælt með því,“ segir Rósa. Hún bendir þó á að jóga sé langt frá því að vera nýtt en þessi fræði eru yfir 5.000 ára gömul. „Það má því segja að jóga sé örugglega komið til að vera, þetta er engin ný bóla heldur eldgömul vísindi sem sanna sig öld eftir öld.“

Fólk hækkar um nokkra sentimetra
Rósa segir að jóga sé gott líkamskerfi sem hefur staðist tímans tönn. „Í jóga færð þú styrktarþjálfun, teygjur, jafnvægi og kyrrð. Hver vöðvahópur er teygður, bakvöðvar styrktir og miðjan öll talin afar mikilvæg í jóga. Margir sem átt hafa við bakvandamál að stríða hafa nýtt jóga til þess að ná aftur vöðvastyrk og halda sér frá sársauka. Þar sem þú ert alltaf að teygja þig í jóga vinnur þú gegn þeirri staðreynd að fólk gangi saman eftir miðjan aldur og margir nemendur mínir hafa sannarlega verið hæðarmældir eftir nokkura mánaða ástundun og hækkað um 1-2 sentimetra,“ segir Rósa. Hún bætir því við að það sé mikilvægt til að sporna við öllu nútíma áreiti að fá tækifæri til að slaka á, en hver jógatími endar með slökun.

Eins og fyrr segir fagnar Rósa tíu ára starfsafmæli í ár. „Þetta er orðinn langur tími en virkilega skemmtilegur og áhugaverður. Margir hafa komið í jóga á þessum tíma og enn er fólk hjá mér sem byrjaði hjá mér fyrir tíu árum, sem er skemmtilegt. Í byrjun var ég á ýmsum stöðum en það er dásamlegt að geta boðið upp á notalega jógastöð í miðjum bænum þar sem fólk getur komið og hlaðið batteríin,“ segir Rósa en hún er með aðstöðu að Austurvegi 21c á Selfossi.

Ekki bara teygjur á dýnu
„Jóga er ekki bara teygjur á dýnu heldur er það heildrænt, tekur á líkama og huga, viðhorfi til lífsins og lífsstílnum öllum. Eitt það áhugaverðasta sem ég hef hingað til lært er Jóga Nídra djúpslökun sem í lærði í Bandaríkjunum,“ segir Rósa, en hún fer reglulega á námskeið erlendis til að auka þekkingu sína á fræðunum.

„Jóga nídra er alveg magnað og hentar sérlega vel þeim sem eru á miklu spani og þurfa að komast yfir margt, það er svo mikil streita sem magnast upp í öllu þessu spani sem orðin er að lífstíl hjá svo mörgum,“ segir Rósa en í jóga nídra eru þátttakendur leiddir í djúpa slökun, mun dýpri en er í venjubundnum jógatíma. „Fólk slakar svo fullkomlega á að líkaminn fær tíma til að gefa eftir og losa sig við streitu og þreytu og fara djúpt inn í undirmeðvitundina.“

„Ég held það megi alveg segja að flestir hefðu gott af því að hægja aðeins á hraðanum sem einkennir daglegt líf fólks. Allir geta stundað jóga, allir geta notið þess ávinnings sem jóga gefur á sínum forsendum. Ég hef hingað til ekki hitt neinn sem heldur öðru fram,“ segir Rósa að lokum.

Fyrri greinEinstakur tónlistarviðburður í Þorlákshöfn
Næsta greinHyggur á byggingu frystigeymslu í Flóanum