Joe & the Juice opnar á Selfossi

Emil Aron Sigurðarson í Joe & the Juice á Selfossi. Ljósmynd/Jóhanna SH

Síðastliðinn mánudag opnaði veitingastaðurinn Joe & the Juice við Austurveg 2 á Selfossi.

„Okkur hafði lengi langað að opna Joe & the Juice á Selfossi, tækifærið gafst svo í þessum nýja glæsilega miðbæ. Joe & the Juice er í grunninn danskt vörumerki sem opnaði upphaflega í Kaupmannahöfn árið 2002. Í dag eru yfir 300 staðsetningar í sextán löndum – þar af eru tíu hér á landi,“ segir Emil Aron Sigurðarson, þjálfari hjá Joe & The Juice, í samtali við sunnlenska.is.

„Við opnuðum dyrnar á mánudaginn og viðtökurnar hafa verið mjög góðar, sér í lagi þar sem við ákváðum að byrja fyrstu dagana án þess að auglýsa opnun. Framundan eru svo ýmis tilboð, t.d. 50% afsláttur á djúsum fyrstu dagana og 50% afsláttur af samlokum frá 22/11 og út mánuðinn.“

Með tilkomu Joe & the Juice á Selfossi skapast tíu ný störf en hjá félaginu starfa um 80 starfsmenn á landinu öllu.

Bragðbesta kaffið á markaðnum
Emil Aron segir að kjarninn í matseðlinum séu djúsar, samlokur og kaffi (Joe er vísun í „cup of joe“) en allar vörur eru gerðar á staðnum og eftir pöntun. „Á matseðli eru sautján djúsar, fimm shakes og sex mismunandi samlokur. Einnig er úrval af skotum, t.d. úr fersku engifer eða rauðrófum. Kaffið er lífrænt og sérlagað í Hondúras. Það er bragðmikið og við viljum meina að við bjóðum upp á bragðbesta kaffið á markaðnum.“

„Djúsarnir eru margir vinsælir en Iron Man og Pick me up eru mjög vinsælir hjá yngri kynslóðinni ásamt Power Shake. Þeir sem eru aðeins eldri eru meira í grænu djúsunum og þar er t.d. Fibre Active með avocado, epli og sítrónu mjög vinsæll. Þegar horft er á samlokurnar þá er Tunacado vinsælust enda hafa margir aðrir staðir sett samskonar samloku á matseðilinn hjá sér.“

„Við mælum með því að ná sér í appið okkar en þar má sjá allan matseðilinn, panta vörur fyrirfram og verða hluti af vildarklúbbnum okkar, þar sem viðskiptavinir safna punktum og fá ýmiskonar glaðninga eftir því sem punktarnir safnast. Allir sem stofna aðgang í appinu fá frían djús eftir fyrstu pöntun,“ segir Emil Aron að lokum.

Joe & the Juice er á Austurvegi 2 við Tryggvatorg á Selfossi. Ljósmynd/Jóhanna SH
Fyrri greinEitt stærsta verkefni RARIK í þéttbýli um árabil
Næsta greinÁfram skelfur í Vatnafjöllum