Jötunn vélar opna verslun í Reykjavík

Fyrirtækið Jötunn vélar á Selfossi hyggst opna verslun og viðgerðaraðstöðu í Reykjavík í byrjun nýs árs þar sem aðaláherslan verður lögð á þjónustu við golfvelli, sveitarfélög og fyrirtæki.

Jötunn vélar var nýlega valið söluaðili á Íslandi fyrir Toro sláttuvélalínuna og Club Car rafmagnsbíla, sem margir þekkja af golfvöllum. Auk höfuðstöðvanna á Selfossi er fyrirtækið með verslun á Akureyri og með starfsmann á Egilsstöðum, sem sér um sölu véla og varahluta á Austurlandi.

Umsvif fyrirtækisins hafa aukist verulega á tveimur árum, árið 2012 jókst veltan um 60% og náði 1,6 milljarði króna og hagnaður þess var 70 milljónir það ár. Á þessu ári hefur vöxturinn haldið áfram, eða um 20% að sögn Finnboga Magnússonar, framkvæmdastjóra. Hann segir vöxtinn á öllum sviðum rekstursins.

„Það er vissulega mest í aukinni véla- og tækjasölu, en verslunin hefur vaxið líka, sem og varahlutasala,“ segir Finnbogi. Hann segir frekari vaxtarmöguleika liggja í endurnýjun á tækum, bæði sé sá markaður að stækka og uppsöfnuð endurnýjunarþörf sé til staðar sem hann eigi von á að komi fram á næstu árum.

„Fyrir svo utan að landbúnaður er í mikilli sókn, en hann er okkar kjarni og hjartað slær þar,“ segir Finnbogi. Þar sé sama hvar sé á litið, í kjöt eða mjólkurframleiðslu eða í ferðamennsku. „Þar eru gríðarleg tækifæri ef við spilum rétt úr þeim,“ segir Finnbogi.

Jötunn vélar verður tíu ára í vor og um þrjátíu manns starfa nú hjá fyrirtækinu.

Fyrri grein„Þetta kom mér frekar mikið á óvart“
Næsta greinTryggvagata 3 og Mensý best skreytt