JJ pípulagnir bauð lægst í niðursetningu hreinsistöðvar

Íbúum á Borg í Grímsnesi mun fjölga mikið á næstunni þar sem unnið er að stækkun íbúðahverfisins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

JJ pípulagnir áttu lægra tilboðið í niðursetningu skólphreinsistöðvar sem setja á niður á Borg í Grímsnesi í sumar.

Tilboð JJ pípulagna hljóðaði upp á 36,4 milljónir króna og er 64% af áætluðum verktakakostnaði Grímsnes- og Grafningshrepps, sem er 56,7 milljónir króna. Lóðavinna ehf bauð einnig í verkið og hljóðaði tilboð þeirra upp á 65,8 milljónir króna.

Um er að ræða nýja 932,5 persónueininga, þriggja þrepa, sjálfvirka, lífræna skólphreinsistöð ásamt viðbótarsiturlögn sem tekur við skólpi frá núverandi byggð og nýrri íbúðabyggð, miðsvæði og hóteli á Borg í Grímsnesi. Gert er ráð fyrir að stöðin geti þjónað stækkandi byggð til langs tíma en einnig er gert ráð fyrir því að auðvelt sé að stækka hana með viðbótareiningum.

Stöðin verður niðurgrafin á steyptum undirstöðum og ber lítið á henni í umhverfinu. Gert er ráð fyrir að hreinsistöðin verði gangsett í lok ágúst.

Fyrri greinSamkaup, Heimkaup og Orkan heła samrunaviðræður
Næsta greinSemmi tryggði Hamri sigur með tveimur mörkum í uppbótartímanum